1974-1976; Upphafið – ágrip

Flugklúbbur Selfoss var stofnaður 16. maí 1974 og var ekki langur aðdragandi að stofnun hans. Sumarið 1973 hóf Einar Elíasson, upphafsmaður Selfossflugvallar, flugnám í Reykjavík og fékk sólópróf í október sama ár. Að hausti var Einar farinn að fljúga talsvert hér um svæðið með það í huga að finna heppilegan lendingarstað eða stað sem lítið þyrfti að lagfæra til að gera lendingarfæran og leyst honum strax vel á sandauðnina upp af sandvíkinni neðan við Haga, þar sem Selfossflugvöllur var síðar gerður. Einar reiknaði aldrei með að flugmálayfirvöld fengjust til að hafa frumkvæði að flugvallargerð á Selfossi og taldi því vænlegast annað tveggja; að gera lendingarstað upp á eigin spýtur eða kalla saman áhugamannahóp til að knýja málið áfram.

Byrjunin var sú að hann óskaði eftir viðræðum við stjórn Björgunarsveitarinnar Tryggva á Selfossi og taldi liðsmenn hennar líklegasta til að hafa áhuga á flugvallargerð. Á fundi sem haldinn var heima hjá Einari, á Engjavegi 24 á Selfossi haustið 1973, mættu þeir Kjartan Ögmundsson, sem þá var formaður björgunarsveitarinnar, og Ólafur Íshólm stjórnarmaður. Voru þeir áhugasamir um flugvallargerð en töldu björgunarsveitina ekki geta tekið þátt í slíku ævintýri, vildu þeir samt hjálpa til sem þeir gætu. Þegar Einar fór að kynna sér hverjir væru eigendur landsins, sem honum leist svona vel á til flugvallargerðar, heimsótti hann þá feðga Lýð Guðmundsson og Pál Lýðsson í Litlu-Sandvík. Þar frétti hann að Jón Guðbrandsson, dýralæknir á Selfossi, hefði einhverjum árum fyrr skoðað sama land með það sama í huga. Einar hafði því samband við Jón Guðbrandsson sem tjáði honum að hann hefði rætt bæði við landeigendur og Flugmálastjórn um flugvallargerð á þessum stað. Flugmálastjóri, Agnar Kofoed Hansen, hafði tekið vel í hugmyndir Jóns Guðbrandssonar en lengra náði málið ekki og hafði legið niðri um nokkurn tíma.

Jón Guðbrandsson og Einar Elíasson Flugklúbbur SelfossEftir að Jón Guðbrandsson og Einar höfðu náð saman fóru hjólin að snúast og samdi Jón Guðbrandsson við landeigendur, með samningi dags. 16. desember 1973, um afnot af landinu fyrir flugvöll. Jón Guðbrandsson gerði samninginn í eigin nafni enda var flugklúbburinn óstofnaður þá.

Segja má að flug hafi hafist frá Selfossi í febrúar 1974 en þá hóf Þorsteinn Sigurgeirsson flugmaður flug frá Selfossi, fyrir tilstilli Jóns Guðbrandssonar, af túni Fossbænda sem var meðfram Eyrarbakkavegi þar sem Húsasmiðjan er núna.

Þorsteinn hafði í byrjun yfir einni flugvél að ráða, fjögurra manna Cherokee TF-AIT. Þegar flugvöllurinn varð nothæfur í ágúst þetta ár hóf hann flug og flugkennslu þar á sömu flugvél og síðar með TF-EMM sem var Cessna-152 í eigu Einars Elíassonar og Jóns I Guðmundssonar. Var það fyrsta flugvélin í eigu klúbbfélaga Flugklúbbs Selfoss. Um tíma hafði Þorsteinn yfir að ráða 6 manna flugvél, Piper Apache, TF-BAR, sem hann hugðist nota í leiguflug. Skv. flugdagbók Einars flaug hann af Fosstúninu með Þorsteini dagana 14., 15. og 22. febrúar 1974 á TF-AIT. Nokkuð var flogið af túninu fram í apríl eða maí en þá fór frost úr jarðvegi og aðstæður að þyngjast.

Flugklúbbur Selfoss var stofnaður, eins og áður segir, 16. maí 1974 og komu gestir úr Reykjavík fljúgandi og lentu á túni Fossbænda. Stofnfundurinn var haldinn handan Eyrarvegsins í fyrirtæki Einars, Steypuiðjunni sf. Segja má að flug Þorsteins frá túni Fossbænda hafi gefið tóninn fyrir stofnun flugklúbbsins og kveikt áhugann hjá heimamönnum, m.a. Jóni I Guðmundssyni yfirlögregluþjóni sem kosinn var fyrsti formaður klúbbsins og gegndi hann því starfi með miklum sóma allt til ársins 1994 er Sigurður Karlsson tók við forystuhlutverkinu.

Vinna við gerð flugvallarins hófst 9. júní 1974 og ákváðu Jón Guðbrandsson og Einar staðsetningu og stefnur flugbrauta og mældu fyrir þeim. Létu þeir brjóstvitið ráða og fóru eingöngu eftir eigin verkfræðilega og veðurfræðilega innsæi. Fengin var jarðýta frá Ræktunarsambandinu Ketilbirni í Grímsnesi og var ýtustjóri Sigurjón Hjartarson frá Brjánsstöðum. Hvorki voru gerðar teikningar að verkinu né áætlanir og alls ekki sótt um leyfi fyrir einu né neinu. Ekki var heldur tryggt neitt fjármagn til verksins heldur voru verkin látin tala enda gekk framkvæmdin bæði fljótt og vel.

Þegar ýtuvinnu við völlinn var lokið og hann orðinn sléttur og þjappaður eins og kostur var hringdi Einar í yfirverkstjóra Flugmálastjórnar, Júlíus Þórarinsson, og bað hann að líta á verkið og taka það það út. Einnig bað hann Júlíus um að útvega klúbbnum vindpoka og hatta til merkinga meðfram flugbrautunum. Kom Júlíus strax og gekk um svæðið og sagði lítið annað en að honum þætti merkilegt að kominn væri vísir að flugvelli án þess að Flugmálastjórn kæmi þar nærri. Sagðist hann myndi bera erindið undir flugmálastjóra. Agnar mun hafa tekið erindinu vel því strax næsta dag kom Júlíus aftur og þá með umbeðna hluti og sá um uppsetningu þeirra að hluta. Hann kom einnig með skilaboð frá flugmálastjóra um að flugklúbburinn skrifaði honum bréf með beiðni um fjárframlag til að aka ofaníburði í brautir flugvallarins sem honum þótti ekki vanþörf á. Var bréfið sent um hæl og í framhaldi af því kom bréf frá flugmálastjóra, dags. 12. september 1974, með loforði um fjárveitingu að upphæð kr. 500.000,-. Einnig greiddi Sýslusjóður Árnessýslu kr. 400.000,- til vallarins og síðar Selfosshreppur einnig sömu upphæð. Þessir peningar, ásamt framlagi frá Sandvíkurhreppi, kr. 50.000,-, dugðu til að greiða fyrir jarðýtuvinnuna og með dyggri aðstoð vörubílstjóra á svæðinu fyrir þunnu ofaníburðarlagi á brautirnar sem þá voru 600 og 400 metra langar og 25 metra breiðar. Einnig lánaði vegagerðin veghefil til að slétta brautirnar. Ef þetta ofaníburðarlag hefði ekki komið til er hætt við að brautirnar hefðu fokið út í veður og vind strax fyrsta veturinn en þær voru eingöngu gerðar úr sandi sem var á svæðinu sem hafði fokið úr árfarvegi Ölfusár í áranna rás.

Formleg vígsla Selfossflugvallar fór síðan fram 31. ágúst 1974 og tók Einar Elíasson svokallaða vígslulendingu á Cessna 150, TF-FHB frá Flugskóla Helga Jónssonar, og séra Sigurður Sigurðarson sóknarprestur fór með vígsluorð. Einnig kom fjöldi flugvéla í heimsókn, m.a. af Reykjavíkursvæðinu og víðar. Jón I Guðmundsson formaður Flugklúbbs Selfoss hélt ræðu og síðan voru sýnd ýmis flugatriði. Mikið fjölmenni var viðstatt vígslu flugvallarins og ríkti almenn ánægja með tilkomu flugvallarins.

Vegur að flugvellinum var mjög lélegur fyrstu árin en var smám saman styrktur og tók vegagerðin síðan að sér uppbyggingu hans og viðhald. Þosteinn Sigurgeirsson hóf byggingu fyrsta flugskýlisins (skýli 1) árið 1975 en flugklúbburinn tók það yfir ári seinna og lauk við smíði þess. Þorsteinn var þá hættur flugkennslu og flugrekstri.